
Ljósmyndarinn

Hugi Guttormsson er áhugaljósmyndari sem er fæddur og uppalinn á Fljótsdalshéraði, nánar tiltekið á sveitabænum Krossi í hinni fornu Fellasveit, sem í dag er hluti af sveitarfélaginu Múlaþingi. Í sveitinni liggja rætur hans þar sem náttúrufegurð, frelsi og kyrrð var allt umlykjandi og stór hluti af daglegu lífi.
Snemma kviknaði áhugi hjá honum á ferðalögum og útivist og upp frá því hefur náttúra íslands alltaf átt sérstkakan stað í hjarta hans. Í framahldi af því fékk hann svo áhuga á jeppaferðum og gönguferðum um hálendi íslands og samhliða því kviknaði líka áhugi fyrir ljósmyndun og brennandi ástríða fyrir því að festa hin ýmsu undur íslenskrar náttúru á mynd.
Hugi hefur haldið nokkrar ljósmyndasýningar og myndir eftir hann hafa birst í nokkrum tímaritum. Sú hugmynd hafði lengi verið í vinnslu að koma ljósmyndunum á veraldarvefinn þar sem þær gætu verið aðgengilegar öðrum til ánægju. Ég ákvað á endanum að draga föður minn að landi í því, greip hugmyndina og nýtti hana í lokaverkefni í Menntaskólanum á Egilsstöðum og er útkoman þessi vefsíða með sýnishorni af myndunum hans með þeim möguleika að fólk geti keypt útprentanir af þeim á ljósmyndapappír eða striga.
Vonandi eiga þessi sýnishorn af ljósmyndum Huga eftir að vaxa og dafna og hver veit nema að einn daginn verði þetta orðið að stóru og veglegu ljósmyndasafni.
- Líney Petra Hugadóttir